Hring­rásar­hag­kerfi kosninga­lof­orða

Árið 2018 lofaði Samfylkingin því fyrir sveitastjórnarkosningar að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Bjóða átti öllum börnum á aldrinum 12 til 18 mánaða leikskólapláss. Vorið 2018 var 800 nýjum leikskólaplássum lofað fyrir kosningar. Sex nýjum leikskólum.

Staðan fjórum árum síðar er að ekkert hefur breyst. Biðlistar eru ennþá jafnlangir eða lengri. Síðastliðið haust voru svokallaðar Ævintýraborgir kynntar til sögunnar. Er þar um að ræða stæður af færanlegum vinnuskúrum sem hafa verið innréttaðir sem daggæslurými fyrir börn. Ekki ósvipuð aðstaða og starfsmenn Impregilo nutu við byggingu Kárahnjúkavirkjunar á sínum tíma.

Ný hverfi á borð við Hlíðarenda eru orðin full af fólki og íbúar þar þurfa að koma börnum sínum yfir þvera borgina á leikskóla. Íbúar Laugardal þurfa að keyra börn í leikskóla upp í Grafarvog. Svona mætti lengi telja. Ekki einu sinni Borgarlínan myndi leysa þetta vandamál.

Frambjóðendur Samfylkingarinnar boða nú – árið 2022 – leikskólapláss fyrir öll 12 til 18 mánaða börn. Allir sjá hvernig gekk að standa við þetta sama loforð fyrir fjórum árum síðan. Það var hreinlega ekki gert. Er með ólíkindum að sama loforði sé teflt fram óbreyttu nú.

Hringrásarhagkerfið er eitt af þeim samtímahugtökum sem njóta mikillar hylli um þessar mundir. Einn af lykilþáttum hringrásarhagkerfisins er ekki síst aukin endurvinnsla. Erfitt er að segja hvort endurvinnsla kosningaloforða falli að hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins, en Samfylkingin virðist svo telja.

Hringrásarhagkerfi kosningaloforða Samfylkingarinnar skilar engu gagnlegu. Sömu hlutunum er lofað kosningar eftir kosningar en ekkert gerist og ekkert breytist. Meirihlutinn í borginni veldur ekki verkefninu og kominn tími til að skipta þeim út. Ævintýraborgirnar eru því miður skýjaborgir.

Greinin birtist fyrst á Vísi 15.mars.

Skafið innan úr Orkuveitunni

Uppgjör Orkuveitu Reykjavíkur (OR) fyrir síðasta rekstrarár er það besta frá upphafi með tilliti til rekstrarhagnaðar. Álverð er helsta skýringin á góðum hagnaði fyrirtækisins. Álmarkaðir voru þegar farnir að hjarna við á fyrri hluta árs 2021 í kjölfar verðhruns í heimsfaraldri. Á síðari hluta árs náði álverð svo methæðum. Það met hefur raunar síðan þá verið slegið aftur vegna ófriðar í austurhluta Evrópu.

Líklegt má telja að stærsta arðgreiðslan í sögu OR verði tilkynnt í kjölfar afkomutilkynningarinnar. Raunar hangir fjármálaáætlun Reykjavíkurborgar á því að tugir milljarða renni út úr fyrirtækinu til eigenda í gegnum arðgreiðslur á næstu fimm árum. Staðan í dag er þessi: Ef OR reiðir ekki fram fimm milljarða á ári í arðgreiðslu til Reykjavíkur verður borgarsjóður Reykvíkinga líkast til rekinn með halla. Það liggur í augum uppi að fyrirhugaðar arðgreiðslur verða hins vegar alltaf á kostnað einhvers annars í rekstri OR. Það er fjárfestinga, viðhalds og vaxtar. Stjórn OR samþykkti í september síðastliðnum fjárhagsáætlun fyrir árið 2022 og fimm ára fjárhagsspá OR fyrir árin 2023-2027. Tekjur OR eiga að aukast um tæp 20% á árabilinu 2023 til 2027 og er spáð í tæpum 68 milljörðum á árinu 2027. Á sama tímabili eiga fjárfestingar fyrirtækisins hins vegar að dragast saman um svipaða prósentutölu og eiga að vera um 17 milljarðar á árinu 2027.

Fjárfestingar sem hlutfall af veltu eru áætlaðar um 38% á árinu 2022. Sama hlutfall á að lækka í 25% á árinu 2027. Öllum er ljóst að raforkunotkun mun aukast mikið á allra næstu árum og því sætir furðu að fjárfestingar næststærsta raforkuframleiðanda landsins eigi að dragast saman á tímabilinu. Ætlar OR að skila auðu í orkuskiptunum?

Því hefur verið haldið fram að ekki þurfa að virkja meira til að orkuskipti geti átt sér stað á Íslandi. Sú umræða á varla rétt á sér því augljóst er að fullyrðingin stenst ekki. Landsvirkjun metur það sem svo að raforkuframleiðsla þurfi að aukast um að minnsta 50% til að standa undir orkuskiptum. Grænbók umhverfis- og orkumálaráðherra hefur líka litið dagsins ljós, en þar var lagt mat á hversu mikið meiri raforku þarf að framleiða hér á landi til að Ísland geti uppfyllt skuldbindingar sínar í loftslagsmálum. Þar var bætt töluvert í og reiknað með því að raforkuvinnsla þyrfti að meira en tvöfaldast á næstu árum. Það er því verk að vinna.

Pólitísk stjórn

Ekki er hægt að fullyrða að fjárhagsspá OR sé að einhverju leyti undir pólitískum áhrifum og miði öðrum þræði að því að skila sem mestum arðgreiðslum til eigenda á kostnað fjárfestinga í dreifikerfi og orkuvinnslu. Stjórn fyrirtækisins er hins vegar pólitískt skipuð og því er alls ekki hægt að útiloka það heldur.

Ekki þarf að líta lengra aftur en til útmánaða 2017 þegar 750 milljóna króna arðgreiðsla var samþykkt án þess að öll arðgreiðsluskilyrði væru uppfyllt. Veltufjárhlutfall fyrirtækisins var um 20% lægra en áðurnefnd skilyrði kváðu á um. Arðgreiðslan var engu að síður keyrð í gegn. Sporin hræða því í þessum efnum. Svo virðist sem arðgreiðslur í borgarsjóð Reykjavíkur og annarra eigenda fyrirtækisins séu forgangsmál umfram annað þegar fjármagni sem myndast við rekstur OR er ráðstafað.

 Það mætti velta því upp hvort eðlilegt sé að rekstur stærsta sveitarfélags á Íslandi sé háður því að álverð í London sé nægilega hátt, en það er efni í aðra umræðu. Hinn raunverulegi arður af rekstri OR sem heimili og fyrirtæki á suðvesturhorninu njóta á degi hverjum er eitt lægsta verð á raforku og húshitun sem fyrirfinnst á byggðu bóli.

Til að tryggja að svo verði áfram þarf að stöðva afskipti kjörinna fulltrúa af stjórnun fyrirtækisins og fela óháðri tilnefningarnefnd skipan stjórnarinnar. Aðeins þannig verða hagsmunir fyrirtækisins og Reykvíkinga allra tryggðir til lengri tíma.

Höfundur er hagfræðingur og óskar eftir stuðningi í 4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 10.mars

Lækkum fasteignagjöld tafarlaust

Reykvísk fyrirtæki, stór og smá, flykkjast nú unnvörpum með starfsemi sína til annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Ástæðan er tvíþætt: Háir fasteignaskattar og skortur á húsnæði. Síðarnefnda vandamálið stafar af mestu af lóðaskorti sem lengi hefur verið rætt og ritað um. Hætt er við því að nokkurn tíma muni taka að vinda ofan af þeim uppsafnaða vanda ef ekki er brugðist fljótt við.

Há skattheimta á atvinnuhúsnæði er hins vegar vandamál sem hægt er að leysa með einu pennastriki á skömmum tíma.

Skattheimta á atvinnuhúsnæði hefur aukist hratt í Reykjavík á undanförnum árum. Á árabilinu 2013 til 2018 hækkaði fasteignamat í Reykjavík um tæplega 50%. Á árinu 2018 breytti Þjóðskrá aðferðafræði sinni við vinnslu fasteignamats sem olli því að fasteignir voru metnar nær markaðsvirði. Matsbreytingin orsakaði tæplega 13% hækkun fasteignamats á einu bretti. Allir vita svo hvernig fasteignamarkaðurinn hefur þróast á allra síðustu árum.

Ætla má að innheimt fasteignagjöld Reykjavíkurborgar á árinu 2021 muni höggva nærri 21 milljarði króna. Sé litið til ársreiknings Reykjavíkur frá árinu 2013 má sjá að innheimt fasteignagjöld munu þá hafa aukist um tæp 54% að raunvirði í valdatíð núverandi meirihluta.

Hér er ekki um neitt annað að ræða en hreina skattahækkun.

Umræðan um hærri skattbyrði á atvinnuhúsnæði fór aldrei fram. Engin ákvörðun var tekin um þessa tilteknu skattahækkun. Meirihlutinn í Reykjavík hefur hins vegar vanrækt að lækka álagningarprósentu fasteignagjalda til samræmis við hækkandi fasteignamat.

Önnur sveitarfélög hafa ekki látið sitt eftir liggja í þessum efnum. Kópavogur, Garðabær, Mosfellsbær, Reykjanesbær og Vestmannaeyjabær hafa öll lækkað álagningarprósentu fyrir yfirstandandi ár til samræmis við hækkandi fasteignamat og eru öll með lægri álagningarprósentu en höfuðborgin.

Reykjavík lækkaði álagningarprósentu atvinnuhúsnæðis lítillega úr hinu 1,65% lögbundna hámarki í 1,6% fyrir ríflega ári síðan. En betur má ef duga skal.

Rétt væri að stefna að því í fyrsta kastið að lækka álagningarprósentuna niður í 1,2 til 1,3% til að byrja svo Reykjavík bjóði upp á samkeppnishæfasta rekstrarumhverfið á höfuðborgarsvæðinu. Fasteignir eru jafnan hærra metnar í Reykjavík en annars staðar og því er eðlilegt að álagningarprósenta fasteignagjalda sé lægri þar en annars staðar.

Til frambúðar ætti svo að gæta að því að álagning fasteignagjalda haldist stöðug að raunvirði, atvinnulífi Reykjavíkur til framdráttar.

Greinin birtist fyrst á Vísi 9.mars.

Naumur sigur í spurningakeppni

Mætti í beina útsendingu til Tomma Steindórs á X-inu 977 þar sem ég tók þátt í spurningakeppni. Andstæðingur minn var Þórdís Valsdóttir, einn þáttastjórnenda Reykjavík síðdegis á Bylgjunni.

Keppnin var æsispennandi allt til enda en ég hafði nauman sigur. Með sigrinum vann ég mér inn keppnisrétt gegn Sigga Orr þann 4.mars næstkomandi.

Trivial Tomma Steindórs 25.febrúar 2022.

Af hneykslum og reginhneykslum

„Það er með öllu ólíðandi að […] taka á okkur skuldbindingar og lán vegna uppbyggingar Landsvirkjunar.” Þessi orð lét einn borgarfulltrúa í Reykjavík falla þegar viðræður um sölu á hlut Reykjavíkurborgar til Landsvirkjunar voru til umræðu í borgarstjórn. Þetta viðhorf var skynsamlegt þá og stenst tímans tönn. 

Hann man það kannski ekki sjálfur, en borgarfulltrúinn sem um ræðir var Dagur B. Eggertsson sem í dag gegnir embætti borgarstjóra. 

Borgarstjóri hefur enn á ný gert það að umtalsefni að Reykjavíkurborg hafi ekki fengið nægilega mikið fyrir sinn snúð þegar tæplega 46% eignarhlutur borgarinnar í Landsvirkjun var seldur til ríkisins. Hann gerði slíkt hið sama árið 2015 og kallaði söluna reginhneyksli. Í morgun sló hann aðeins úr og lét nægja að kalla söluna hneyksli. 

Kaupverðið árið 2006 um 27 milljarðar króna, en um var að ræða yfirtöku á lífeyrisskuldbindingum. Dagur lét það hjá líða að að uppreikna kaupverðið miðað við verðtryggða ávöxtunarkröfu lífeyrissjóða síðastliðin 15 ár, en látum það liggja milli hluta (90 milljarðar). 

Það voru margvísleg, sterk rök fyrir því að ríkið tæki við eignarhaldi Landsvirkjunar að fullu. Enda var það mikið baráttumál R-listans að eignarhaldið færðist til ríkisins. Gagnrýnin í dag snýr að því að verðmiðinn hafi verið of lágur. Er sú gagnrýni sett fram með tilvísan í methagnað Landsvirkjunar á árinu 2021.

Skoða verður stöðuna á Landsvirkjun á árinu 2006 til að leggja mat á hversu sanngjarnt söluverðið var. Eigið fé Landsvirkjunar við árslok 2006 var um 61 milljarður króna og því svarar söluverð Reykjavíkurborgar á þeim tíma um það bil til bókfærðs eigin fjár fyrirtækisins á þeim tíma. 

Við kaup og sölu fyrirtækja er líka mikilvægast að líta til framtíðarhorfa þeirra. En hvaða hugmyndir voru uppi um þróun eigin fjár og rekstrar Landsvirkjunar á þessum tíma? Svo heppilega vill til að þingmaðurinn Kristinn H Gunnarsson spurði iðnaðarráðherra þess tíma, Valgerði Sverrisdóttur, um einmitt þetta atriði á svipuðum tíma og Reykjavíkurborg þrýsti á um sölu á eignarhlut borgarinnar.

Svör iðnaðarráðherra voru byggð á upplýsingum frá Landsvirkjun. Þar var gert er ráð fyrir að eigið fé Landsvirkjunar, sem var ríflega 57 milljarðar undir árslok 2005, lækkaði í um 40 milljarða í árslok 2009 en hækki síðan á nýjan leik og verði um 63 milljarðar króna í árslok 2015. 

Allir vita að reyndin varð önnur. Eigið fé Landsvirkjunar var yfir 250 milljarðar við árslok 2015. Engan óraði fyrir því, hvorki Dag B Eggertsson né sjálfa Landsvirkjun. Verðmiði þess tíma var því fullkomlega eðlilegur miðað við þær upplýsingar sem lágu fyrir þá. 

Vonandi munu kapp- og umræður í aðdraganda borgarstjórnarkosninga ekki snúast um eftiráspeki sem þessa. En ef það verður reyndin, þá verður borgarstjóri að svara því hvers vegna hann keypti ekki bitcoin fyrir hönd borgarsjóðs árið 2015? Ef rekstur borgarinnar á að snúast um hinar ýmsustu stöðutökur þá hlýtur allt að vera undir í þeim efnum.

Aðalatriðið í þessu máli er auðvitað að borgarstjóri segir eitt í dag og annað á morgun. Allt eftir því sem hann telur henta í trausti þess að aðrir séu jafnóminnugir og hann sjálfur á sín eigin orð.

Greinin birtist fyrst á Innherja á Vísi 23.febrúar 2022.

Allt kostar þetta

Eitt helsta bitbein borgarmála á undanförnum misserum er með hvaða hætti uppbygging samgangna verður á höfuðborgarsvæðinu til næstu ára. Næstum því tvö og hálft ár eru síðan samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins var undirritaður milli ríkisins og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Fyrsta markmið samgöngusáttmálans var eftirfarandi: „Greiðar, hagkvæmar og skilvirkar samgöngur á höfuðborgarsvæðinu með jafnri uppbyggingu innviða allra samgöngumáta.” 

Öllum er ljóst að meirihlutinn í borginni hefur ekki haft áhuga á jafnri uppbyggingu allra samgöngumáta, heldur einblínt á almenningssamgöngur og heldur óbeint staðið í vegi fyrir uppbyggingu annars konar samgönguinnviða. Sundabrautin er augljósasta dæmið í þeim efnum. Einnig má nefna uppfærslu gatnamóta Reykjanesbrautar og Bústaðarvegar. Vegagerðin hefur bent á að úrbóta sé þörf á téðum gatnamótum frá árinu 2006 og þau voru ofarlega á blaði í samgöngusáttmálanum frá 2019. Hins vegar er lítið sem ekkert að gerast þar í dag. 

Uppbygging almenningssamganga er góðra gjalda verð og göfug markmið sem þar liggja að baki. Það þýðir þó ekki að annars konar samgönguúrbætur eigi að sitja á hakanum. Ekki verður annað séð en að meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur sé þó á þeim buxunum. 

Hins vegar er tómt mál að tala um risavaxnar fjárfestingar í samgönguinnviðum á meðan neyðarástand ríkir í fjármálum borgarsjóðs. Skuldir borgarinnar hafa hlaðist upp á undanförnum árum,  hvort sem bara er litið til A-hluta eða samstæðu Reykjavíkurborgar. Það gerist þrátt fyrir að tekjur borgarinnar hafi aukist statt og stöðugt á undanförnum árum í kjölfar launaskriðs og hækkandi fasteignaverðs. 

Samkvæmt nýjasta uppgjöri A-hluta Reykjavíkurborgar námu heildarskuldir 143 milljörðum króna og hafa um það bil tvöfaldast að raunvirði frá miðju ári 2014, en þá tók núverandi meirihluti við stjórnartaumunum í borginni. Meirihlutinn hyggur síðan upp á tugmilljarða lántöku til viðbótar á næstu árum.

Rekstur A-hluta borgarinnar er með innbyggðan halla upp á marga milljarða á ári og treystir borgin á arðgreiðslur frá Orkuveitunni til að reksturinn haldi vatni. Reykjavíkurborg er í raun komin í þá stöðu að þurfa að treysta á hátt álverð í útlöndum til að endar nái saman. Það er ósjálfbær og óábyrg tilhögun.

Til að Reykjavíkurborg geti hreinlega tekið þátt í uppbyggingu samgönguinnviða á næstu árum þarf að koma skikki á efnahagsreikning borgarinnar. Skynsamlegasta leiðin til þess er að borgin dragi sig alfarið úr rekstri fyrirtækja sem hafa lítið með lögbundin verkefni sveitarfélaga að gera.  Nærtækustu dæmin þar eru Gagnaveita Reykjavíkur, Sorpa og Faxaflóahafnir. Skynsamlegt væri að skoða sölu eða aðkomu fjárfesta, til dæmis lífeyrissjóða, að eignarhaldi téðra fyrirtækja. Meira um það síðar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7.febrúar 2022.

Verðlaus rekstur Höfða

Framtíð Malbikunarstöðvarinnar Höfða er í lausu lofti og óljóst hver vilji meirihluta borgarstjórnar er í þeim efnum. Fyrir liggur að 20 þúsund manna íbúðabyggð er fyrirhuguð á Ártúnshöfða og við Elliðaárvog og því þarf starfsemi malbikunarstöðvarinnar að víkja. 

Höfði hefur þegar keypt lóð í Hafnarfirði undir starfsemina. Nýjustu fréttir af málinu úr ráðhúsi Reykjavíkur eru síðan þær að fjármálasviði borgarinnar hafi verið falið að kanna sölu á rekstri Höfða.

Fyrir liggur að Reykjavík mun nú leysa til sín lóðina sem hefur verið nýtt undir starfsemi fyrirtækisins. Að sama skapi hefur komið fram að kostnaður við flutningana verði um 1,7 milljarðar króna – sá kostnaður verður fjármagnaður með lántöku. 

Í síðasta aðgengilega uppgjöri Höfða frá árinu 2020 var rekstrarafkoma Höfða neikvæð, sem er skiljanlegt í ljósi þess að þá hafði heimsfaraldurinn læst klóm sínum í stóran hluta atvinnulífsins. Sé hins vegar litið til áranna 2018-2019 var rekstrarhagnaður Höfða (EBITDA) 145 milljónir og 103 milljónir króna, eða um 125 milljónir króna að meðaltali. Fljótleg leið til að meta rekstrarvirði fyrirtækja er að líta til ákveðins margfeldis rekstrarhagnaðar. Af miklu örlæti mætti meta rekstrarvirði Höfða sem tífaldan rekstrarhagnað, eða sem samsvarar um 1,25 milljarði króna. Að sjá fyrir sér slíkan verðmiða á rekstri Höfða er þó ansi mikil bjartsýni. 

Í ljósi þess að Höfði hefur ekki lengur gjaldfrjáls afnot af núverandi lóð við Sævarhöfða er ljóst að rekstrarvirði fyrirtækisins er í besta falli núll. Verðmæti rekstrarins er hundruðum milljóna lægri en kostnaðurinn við flutningana í Hafnarfjörð og því nánast útilokað að kaupandi finnist að rekstrinum miðað við nýjar forsendur um staðsetningu í Hafnarfirði.

Efnahagsreikningur Höfða er þó þrátt fyrir allt í góðu ástandi og lítt skuldugur enn sem komið er. Því væri réttast að einfaldlega leggja niður rekstur Malbikunarstöðvarinnar Höfða. Reykjavíkurborg gæti þannig leyst til sín allt að því einn milljarð króna með sölu á tækjum, tólum, birgðum, innheimtu útistandandi viðskiptakrafna og svo framvegis.

Lengi hefur verið bent á að þátttaka Reykjavíkurborgar á malbikunar- og grjótnámsmarkaði sé einfaldlega tímaskekkja, enda ríkir virk samkeppni á þeim markaði. Höfði hefur verið í eigu Reykjavíkurborgar frá því á fyrri hluta síðustu aldar og vel kann að vera að á þeim tíma hafi einkaframtakið ekki haft burði til að sinna grjótnámi og malbikun á höfuðborgarsvæðinu. Staðan er sannarlega önnur í dag og undirritaður er ekki sá fyrsti til að benda á þá staðreynd.

Nú hafa fjárhagslegar forsendur Höfða breyst með þeim hætti að borgarsjóður þarf mögulega að greiða með rekstrinum. Hið eina rétta í stöðunni fyrir borgarsjóð, eiganda Höfða, er að loka fyrirtækinu, selja eignir og leysa til sín það fé sem þar losnar og ráðstafa því fjármagni til lögbundinna verkefna sveitarfélagsins.

Greinin birtist fyrst á Innherja á Vísi 3.febrúar 2022.