Eitt helsta bitbein borgarmála á undanförnum misserum er með hvaða hætti uppbygging samgangna verður á höfuðborgarsvæðinu til næstu ára. Næstum því tvö og hálft ár eru síðan samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins var undirritaður milli ríkisins og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Fyrsta markmið samgöngusáttmálans var eftirfarandi: „Greiðar, hagkvæmar og skilvirkar samgöngur á höfuðborgarsvæðinu með jafnri uppbyggingu innviða allra samgöngumáta.”
Öllum er ljóst að meirihlutinn í borginni hefur ekki haft áhuga á jafnri uppbyggingu allra samgöngumáta, heldur einblínt á almenningssamgöngur og heldur óbeint staðið í vegi fyrir uppbyggingu annars konar samgönguinnviða. Sundabrautin er augljósasta dæmið í þeim efnum. Einnig má nefna uppfærslu gatnamóta Reykjanesbrautar og Bústaðarvegar. Vegagerðin hefur bent á að úrbóta sé þörf á téðum gatnamótum frá árinu 2006 og þau voru ofarlega á blaði í samgöngusáttmálanum frá 2019. Hins vegar er lítið sem ekkert að gerast þar í dag.
Uppbygging almenningssamganga er góðra gjalda verð og göfug markmið sem þar liggja að baki. Það þýðir þó ekki að annars konar samgönguúrbætur eigi að sitja á hakanum. Ekki verður annað séð en að meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur sé þó á þeim buxunum.
Hins vegar er tómt mál að tala um risavaxnar fjárfestingar í samgönguinnviðum á meðan neyðarástand ríkir í fjármálum borgarsjóðs. Skuldir borgarinnar hafa hlaðist upp á undanförnum árum, hvort sem bara er litið til A-hluta eða samstæðu Reykjavíkurborgar. Það gerist þrátt fyrir að tekjur borgarinnar hafi aukist statt og stöðugt á undanförnum árum í kjölfar launaskriðs og hækkandi fasteignaverðs.
Samkvæmt nýjasta uppgjöri A-hluta Reykjavíkurborgar námu heildarskuldir 143 milljörðum króna og hafa um það bil tvöfaldast að raunvirði frá miðju ári 2014, en þá tók núverandi meirihluti við stjórnartaumunum í borginni. Meirihlutinn hyggur síðan upp á tugmilljarða lántöku til viðbótar á næstu árum.
Rekstur A-hluta borgarinnar er með innbyggðan halla upp á marga milljarða á ári og treystir borgin á arðgreiðslur frá Orkuveitunni til að reksturinn haldi vatni. Reykjavíkurborg er í raun komin í þá stöðu að þurfa að treysta á hátt álverð í útlöndum til að endar nái saman. Það er ósjálfbær og óábyrg tilhögun.
Til að Reykjavíkurborg geti hreinlega tekið þátt í uppbyggingu samgönguinnviða á næstu árum þarf að koma skikki á efnahagsreikning borgarinnar. Skynsamlegasta leiðin til þess er að borgin dragi sig alfarið úr rekstri fyrirtækja sem hafa lítið með lögbundin verkefni sveitarfélaga að gera. Nærtækustu dæmin þar eru Gagnaveita Reykjavíkur, Sorpa og Faxaflóahafnir. Skynsamlegt væri að skoða sölu eða aðkomu fjárfesta, til dæmis lífeyrissjóða, að eignarhaldi téðra fyrirtækja. Meira um það síðar.